Hvað er hávaðamengun
Hljóð og hávaði eru allstaðar í umhverfinu. Hávaði sem veldur ónæði og óþægindum telst vera hávaðamengun. Hávaðamengun er að miklu leyti til komin vegna athafna manna, svo sem iðnaðar, verslunar- og þjónustustarfsemi, tómstundaiðju fólks, ásamt umferð bifreiða og annarra vélknúinna ökutækja. Hávaði yfir ákveðnum mörkum er heilsuspillandi og getur valdið skemmdum á heyrn auk truflunar og margvíslegra sálrænna áhrifa sem valdið geta andlegri vanlíðan.
Markmið reglugerðar 724/2008 um hávaða er að draga úr og koma í veg fyrir hávaða. Þar koma einnig fram almennar kröfur um hljóðstig, skyldur og réttindi almennings og rekstraraðila. Í reglugerð um hávaða og í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er hávaði skilgreindur sem mengunar- og ónæðisvaldur sem bæði ber koma í veg fyrir og draga úr. Skylt er að haga allri háværri starfsemi og athöfnum þannig að ekki valdi ónæði.