Almennt er dreifing matvæla, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala, starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum um matvæli.
Almennt er dreifing matvæla, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala, starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt lögum um matvæli. Matvælafyrirtæki, þ.m.t. einstaklingar, sem hyggjast starfrækja dreifingu matvæla af einhverju tagi á svæði Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, skulu sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Óheimilt er að reka starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út samkvæmt lögum.
Á þessari síðu er að finna upplýsingar fyrir þá aðila sem hyggjast flytja inn matvæli hingað til lands og selja til smásala eða stóreldhúsa (heildverslanir með matvæli).
Vakin er sérstök athygli á að fæðubótarefni teljast til matvæla í skilningi matvælalaga. Vítamín og steinefni sem seld eru forpökkuð í smásölu ein og sér eða blönduð saman (t.d. fjölvítamín) teljast til fæðubótarefna.
Stjórnandi matvælafyrirtækisins ber ábyrgð á að matvælin sem matvælafyrirtækið framleiðir og/eða dreifir séu örugg og að þau uppfylli ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, og reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum, s.s. hvað varðar merkingar, fullyrðingar og innihaldsefni.
Mikilvægt er að stjórnandi matvælafyrirtækis geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem matvælalöggjöfin setur á herðar hans.
Þegar sótt um starfsleyfi fyrir heildverslun með matvæli þarf að tilgreina í starfsleyfisumsókninni hvaða matvæli ætlunin er að dreifa og upprunaland /-lönd þeirra. Dæmi: Áfengi, drykkjarvörur aðrar en áfengi, kælivörur, frystivörur, þurrvörur, sælgæti, fæðubótarefni.
Í umsókninni þarf að greina frá því hvernig matvælafyrirtækið mun tryggja að matvælin sem það hyggst dreifa hér á landi uppfylli matvælalögin og reglugerðirnar sem byggja á þeim.
Í starfsleyfisumsókninni þarf að tilgreina hvar lager fyrirtækisins verður staðsettur og veita upplýsingar um matvælaöryggiskerfi (innra eftirlit). Hvað lagerinn varðar eru tveir kostir í stöðunni:
Einungis má geyma matvæli í húsnæði sem samþykkt er til starfseminnar af byggingarfulltrúa (atvinnuhúsnæði). Geymsla matvæla í heimahúsi er ekki leyfileg. Húsnæðið þarf að uppfylla kröfur matvælalöggjafarinnar og vera auðvelt í þrifum, meindýrahelt, búið aflokaðri loftræstri ræstiaðstöðu með ræstilaug, snyrtingu og starfsmannaaðstöðu ef við á (fataskiptaaðstaða, snyrting og kaffistofa með kaffivaski). Matvæli má ekki geyma á gólfi. Heilbrigðiseftirlitið mun gefa út starfsleyfi fyrir heildverslun með matvæli. Starfsleyfið gildir almennt í 12 ár og um kostnað fer skv. gildandi gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins sem nálgast má á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis. Heilbrigðisfulltrúi skoðar starfsemi fyrirtækisins og tekur út matvælaöryggiskerfi þess áður en umsókn um starfsleyfi er samþykkt. Þegar fyrirtækið hefur fengið starfsleyfi mun heilbrigðisfulltrúi koma í reglubundið eftirlit og er tíðnin ákvörðuð samkvæmt áhættumati.
Dæmi um aðila sem bjóða upp á þessa þjónustu eru vöruhótelin, Vöruhótel Eimskips, DHL, Górilla vöruhús og Vöruhýsing Póstsins. Verði þessi kostur fyrir valinu þarf afrit af samningi fyrirtækisins við hýsingaraðila að fylgja umsókn um starfsleyfi eða skrifleg staðfesting frá hýsingaraðila að hann annist þessa þjónustu fyrir fyrirtækið. Heilbrigðiseftirlitið mun gefa út starfsleyfi fyrir heildverslun með matvæli án lagers. Starfsleyfið gildir ótímabundið og um kostnað fer skv. gildandi gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins sem nálgast má á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Öll matvælafyrirtæki þurfa að setja upp innra eftirlit með starfseminni. Innra eftirlit fyrirtækisins skal miða við eðli og umfang starfseminnar.
Upplýsingar um matvælaöryggiskerfi (innra eftirlit) má nálgast á vefsíðu Matvælastofnunar, http://www.mast.is/matvaelastofnun/innra-eftirlit/. Á síðunni má finna bækling um innra eftirlit og leiðbeiningar um góða starfshætti sem mikilvægt er að kynna sér. Vakin er sérstök athygli á köflum 2.12 (rekjanleiki) og 2.13 (innköllun vöru ) í leiðbeiningum um góða starfshætti. Matvælafyrirtækið þarf að tryggja rekjanleika og vera með skriflegt verklag um innköllun.
Umsókn um starfsleyfi verður tekin til afgreiðslu þegar fullnægjandi gögn hafa borist.
Um matvæli gilda matvælalög nr. 93/1995, með síðari breytingum. Samkvæmt lögunum er óheimilt að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr.
Um fæðubótarefni gildir reglugerð nr. 624/2004 um fæðubótarefni, með síðari breytingum, en í reglugerðinni eru ákvæði um sérstakar merkingar fyrir fæðubótaefni. Fæðubótarefni eru matvæli og um þau gilda einnig almennar merkingarreglur matvæla.
Almennar merkingarreglur fyrir matvæli (þ.m.t. fæðubótaefni og áfengi) er að finna í reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, með síðari breytingum. Þessi reglugerð innleiðir hér á landi reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011 um sama efni. Vakin er athygli á því að gild tungumál merkinga matvæla hér á landi eru íslenska, enska og norðurlandarmál önnur en finnska.
Reglur um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli er að finna í reglugerð nr. 406/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli, með síðari breytingum.
Hér að ofan hafa verið tekin dæmi um reglugerðir sem þarf að kynna sér. Lög og reglugerðir um matvæli má nálgast á heimasíðu Matvælastofnunnar. Mikilvægt er að kynna sér bæði matvælalögin (nr. 93/1995) og reglugerðir sem byggja á þeim lögum áður en dreifing matvæla hefst. Ábyrgð á að matvæli uppfylli ákvæði laganna og reglugerðanna sem byggja á lögunum liggur alltaf hjá matvælafyrirtækinu.